Landsliðsmaðurinn ekki á leið til þýsku meistaranna

Sigvaldi Björn Guðjónsson er ekki á förum frá Kolstad.
Sigvaldi Björn Guðjónsson er ekki á förum frá Kolstad. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og leikmaður Noregsmeistara Kolstad, er ekki á leið til Þýskalandsmeistara Kiel.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.

Sigvaldi Björn, sem er 29 ára gamall, gekk til liðs við Kolstad frá pólska stórliðinu Kielce sumarið 2022 og var meðal annars gerður að fyrirliði Kolstad fyrir síðasta tímabil.

Handboltamiðillinn Håndballrykter greindi frá því í gær að leikmaðurinn gæti verið á leið til Kiel en samkvæmt heimildum hafa engar viðræður átt sér stað á milli félaganna um vistaskipti hornamannsins.

Sigvaldi Björn hefur látið lítið fyrir sér fara í leikjum Kolstad í upphafi tímabilsins en liðið er með 5 stig í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

mbl.is