Landsliðsmaðurinn í liði umferðarinnar

Kristján Örn Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu á HM …
Kristján Örn Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu á HM í upphafi ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur verið valinn í lið 3. umferðar í frönsku 1. deildinni eftir frábæra frammistöðu sína með liði Aix í 35:31-sigri á Saran síðastliðinn fimmtudag.

Kristján Örn fór mikinn er hann skoraði 11 mörk í leiknum og var markahæstur allra.

Donni, eins og hann er ávallt kallaður, er á meðal markahæstu leikmanna frönsku efstu deildarinnar enda er Fjölnismaðurinn búinn að skora 24 mörk í fyrstu þremur leikjum Aix á tímabilinu.

Er hann í öðru til fjórða sæti yfir markahæstu menn deildarinnar.

mbl.is