Nýtti tækifærið vel í Þýskalandi

Andri Már Rúnarsson lék vel.
Andri Már Rúnarsson lék vel. Ljósmynd/Jozo Cabraja

Leipzig tryggði sér í dag sæti í 16-liða úrslitum þýska bikarsins í handbolta með 33:25-útisigri á Lübeck-Schwartau í Íslendingaslag.

Andri Már Rúnarsson nýtti tækifærið vel og skoraði sjö mörk fyrir Leipzig. Viggó Kristjánsson komst ekki á blað. Rúnar Sigtryggsson, faðir Andra Más, þjálfar Leipzig. Örn Vésteinsson skoraði ekki fyrir heimamenn.

Melsungen, sem hefur komið skemmtilega á óvart í 1. deildinni og er þar með fullt hús stiga, vann Dessauer á útivelli, 31:28. Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir toppliðið.

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach unnu Düsseldorf 44:27 á útivelli. Elliði Snær Viðarsson skoraði ekki fyrir Gummersbach.

Hákon Daði Styrmisson komst ekki á blað hjá Hagen sem vann 25:23-heimasigur á Coburg. Tumi Steinn Rúnarsson lék ekki með Coburg.

Loks vann N-Lübbecke 29:27-heimasigur á Balingen. Oddur Gretarsson skoraði eitt mark fyrir Balingen en Daníel Þór Ingason ekkert.

mbl.is