Glímir við meiðsli en ætlar að ná HM

Elín Klara Þorkelsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Elín Klara Þorkelsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Klara Þorkelsdóttir, landsliðskona í handknattleik, er að glíma við ökklameiðsli og er af þeim sökum tæp fyrir alþjóðlegt mót þar sem íslenska landsliðið mun í vikunni hefja þátttöku í undirbúningi fyrir HM 2023.

„Ég sneri mig frekar illa á ökkla síðasta miðvikudag en þetta er allt að koma til. Ég er alveg farin að stíga í fótinn. Þetta verður alveg orðið gott fyrir HM,“ sagði Elín Klara í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Kaplakrika í dag.

Mótið sem um ræðir ber heitið Posten Cup og fer fram í Noregi, þar sem Ísland leikur einnig í riðli sínum á HM.

Spurð hvort hún bindi vonir við að geta tekið þátt einhvern þátt í mótinu, þar sem Ísland mætir Noregi, Póllandi og Angóla, sagði Elín Klara:

„Já, vonandi. En það er fyrst og fremst að fá þetta alveg gott og byrja ekki of snemma.“

Ættu allar að vera klárar

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari, var við sama tækifæri spurður hver staðan væri á hópnum skömmu fyrir mótið.

„Hún er almennt góð. Það er eitthvað hnjask hér og þar en ekkert sem við höfum stórar áhyggjur af. Það ættu allar að vera klárar þegar mótið sjálft byrjar.

Elín Klara er tæp fyrir æfingamótið en bataferlið gengur vonandi vel og hratt fyrir sig,“ sagði Arnar við mbl.is.

Hann kvaðst ekki vera farinn að leiða hugann að því að kalla leikmann inn í stað Elínar Klöru.

„Nei, ekki eins og staðan er akkúrat núna.“

mbl.is