Fyrrverandi þjálfari hjá Íslandi í miklu veseni í Svíþjóð

Gunnar Magnússon, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Tomas Svensson á landsliðsæfingu …
Gunnar Magnússon, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Tomas Svensson á landsliðsæfingu Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Handboltamarkvörðurinn fyrrverandi, Tomas Svensson, er í miklu veseni fyrir Ólympíuleikana í París í sumar. 

Svensson er markmannsþjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta ásamt því að vera aðstoðarmaður hjá Barcelona. 

Hann var markvarðaþjálfari hjá íslenska karlalandsliðinu frá 2018 til 2021. 

Vegabréfið að renna út

Sænska vegabréfið hans Svensson rennur út í lok júlí. Hann var látinn vita af því í febrúar af handknattleikssambandinu þarlendis en hann verður að vera með löggilt vegabréf til að vera innan raða Svíþjóðar á Ólympíuleikunum. 

Að fá nýtt vegabréf hefur hins vegar reynst Svensson erfitt. 

Tomas Svensson á landsliðsæfingu ásamt Alexander Petersson árið 2020.
Tomas Svensson á landsliðsæfingu ásamt Alexander Petersson árið 2020. mbl.is/Rax

Í samtali við Sportbladet útskýrir hann af hverju. 

„Ég veit ekki hvort ég nái að redda vegabréfinu fyrir Ólympíuleikana. Ég er í sjokki. 

Ég fór beint í að græja nýtt vegabréf en það hefur tekið furðulega langan tíma.“

Guðmundur Guðmundsson og Tomas Svensson.
Guðmundur Guðmundsson og Tomas Svensson. Ljósmynd/Facebook

Fyrst fór Svensson í sænska sendiráðið í Madríd til að redda vegabréfi. Síðan talaði hann við lögregluna í Gautaborg í miðju landsleikjahléi í mars.

„Sex vikum eftir að ég sótti um nýtt vegabréf fékk ég þau skilaboð að þau væru ekki sátt við umsóknina mína. 

„Við vitum ekki hvort þú sért spænskur eða sænskur,“ var sagt. Ég er hvergi nærri því að vera spænskur ríkisborgari, hef aldrei haft áhuga á því. 

Ef þeir fallast ekki á það, þá veit ég ekki hvað skal gera. Þeir eru bara að vinna vinnuna sína og ég kvarta ekki yfir því. Þetta er bara allt saman undarlegt,“ sagði Svesson. 

Svensson lék 330 landsleiki fyrir Svíþjóð á sínum tíma sem markvörður og vann ellefu titla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert