Viktor Gísli: „Aldrei staðið við þetta loforð“

Viktor Gísli Hallgrímsson.
Viktor Gísli Hallgrímsson. Ljósmynd/Kristján Orri

​Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður Íslands í handknattleik, er fullur tilhlökkunar fyrir komandi keppnistímabili í Póllandi en hann gekk til liðs við pólsku meistarana í Wisla Plock í júní í sumar.

Viktor Gísli, sem er 24 ára gamall, kom til pólska félagsins frá Nantes í Frakklandi þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö ár. Markvörðurinn er uppalinn hjá Fram en hann hélt út í atvinnumennsku árið 2019 þegar hann gekk til liðs við danska stórliðið GOG. Þaðan lá leiðin svo til Frakklands árið 2022 en alls á hann að baki 58 A-landsleiki fyrir Ísland.

Gott spjall við þjálfarann

Hvernig voru viðbrögðin hjá forráðamönnum franska félagsins þegar Viktor Gísli tilkynnti þeim að hann vildi fara?

„Þeir skildu mig að einhverju leyti í það minnsta. Ég átti gott spjall við þjálfarann og hann skildi mína hlið mjög vel. Ég var ósáttur með markmannsþjálfunina enda enginn markmannsþjálfari hjá félaginu á meðan ég var þarna. Þjálfarinn var líka ósáttur með það og við bjuggumst báðir við því að það yrði lagt meira í markmannsþjálfunina en raun bar vitni.

Ég var í rauninni ekki með neinn markmannsþjálfara í tvö ár, sem var skrítið fyrir mig enda vanur að vera með markmannsþjálfara alveg frá því að ég var ellefu ára gamall að byrja í handbolta. Það er því óhætt að segja að síðustu tvö ár hafi verið mjög sérstök fyrir mig persónulega því ég hafði í raun engan til þess að tala við og pæla í hlutunum með mér.

Þegar ég gekk til liðs við félagið var mér gefið loforð um að ég yrði með markmannsþjálfara en það var aldrei staðið við þetta loforð sem gerði tímann í Frakklandi skrítinn. Nantes fékk hins vegar pening fyrir mig og á endanum komu þessi félagaskipti vel út fyrir alla.“

Viðtalið við Viktor Gísla má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert