Ekki nógu góðir síðasta kortérið

Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson fær óblíðar móttökur frá Valsmönnum.
Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson fær óblíðar móttökur frá Valsmönnum. mbl.is/Árni Sæberg

Kári Kristján Kristjánsson fyrirliði ÍBV var markahæsti maður liðsins með 7 mörk í 31:31 jafnteflisleik Eyjamanna við Val í fyrstu umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Við ræddum við Kára strax eftir leik.

Við vorum að horfa hér á ansi spennandi leik sem minnti helst á leik í úrslitakeppni. Ertu sáttur við jafntefli í þessum leik?

„Þetta fór hægt af stað en við eiginlega betri allan tímann en mjög spælandi að klára þetta ekki verandi þremur mörkum yfir stuttu fyrir leikslok. Ég er mjög svekktur í ljósi þess að við leiðum allan leikinn."

Þið leiðið allan leikinn með tveimur til þremur mörkum en missið þetta niður í jafntefli í lokinn. 

„Já við bara missum þetta niður í jafntefli og við þurfum að eiga að við okkur sjálfa því við erum bitlausir í lokin. Valsmenn keyra allan leikinn á hröðum upphlaupum. Það er svolítið að drepa okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem þeir eru örugglega með 10 mörk í fyrri hálfleik bara úr upphlaupum."

Þið virðist nú koma nokkuð vel undan sumrinu verandi tveimur mönnum færri á skýrslu og Valsmenn búnir að spila tvo leiki sem skipta máli áður en þessi leikur er spilaður ekki satt?

„Menn eru búnir að vera mjög duglegir að æfa í sumar. Það eru alveg þungar lyftingar ennþá í okkur. Við toppum ekkert í september. Við þurfum bara að vera duglegir að halda í við hin liðin hér í upphafi. Við áttum enga glansleiki á undirbúningstímabilinu.

Auðvitað var síðan svekkjandi að hafa ekki Petar á skýrslu með okkur. Það er bara eitthvað innanbúðarklúður hjá okkur og það hefði verið gaman ef hann hefði getað leyst Pavel af í síðari hálfleik því hann gaf aðeins eftir í seinni hálfleik."

Hvað hefðir þú viljað sjá ganga betur í ykkar leik í kvöld?

„Við hefðum mátt vera aðeins betri í að stöðva seinni bylgjuna hjá þeim. Við erum síðan of mikið útaf eða í samtals 12 mínútur og það var allt rétt dæmt. Það er bara okkar að laga það. Við vorum bara ekki nógu góðir síðasta korterið."

Hvaða plúsar eru í ykkar leik?

„Við erum að mæla okkur hérna við Val og Valur er eitt af bestu liðunum og verða í toppnum. Við ætlum að sjálfsögðu að vera þar líka og berjast við þá og önnur lið um alla málma sem í boði eru," sagði Kári Kristján í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert