Valur og ÍBV áttust við í fyrsta leik Íslandsmóts karla í handbolta á tímabilinu og lauk leiknum með jafntefli 31:31 en leikið var á heimavelli Valsmanna, Hlíðarenda.
Það var Nökkvi Snær Óðinsson sem skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins í ár þegar hann kom ÍBV 1:0 yfir í leiknum í kvöld. Eftir það var talsvert jafnræði á með liðunum þó Eyjamenn hafi leitt allan fyrri hálfleikinn.
Eyjamenn komust mest þremur mörkum yfir í stöðunum 12:9 og 19:16. Bæði lið voru nokkuð fersk og ekki bar mikið á því að liðin væru að koma úr sumarfríi.
Athygli vakti þó að tvo leikmenn vantaði á skýrslu Eyjamanna í kvöld en þeir Petar Jokanovic og nýr leikmaður liðsins Marino Gabrieri voru ekki með sökum mistaka við að skila inn beiðni um leikheimild fyrir þá báða en Petar endurnýjaði samning sinn við Eyjamenn og Marino gekk til liðsins í maí.
Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 19:17 fyrir ÍBV.
Markahæstur í liði Vals var Kristófer Máni Jónsson sem gekk í raðir Valsmanna í sumar frá Haukum. Hann skoraði 4 mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 6 skot í fyrri hálfleik.
Í leiði ÍBV var Sigtryggur Daði Rúnarsson með 5 mörk, þar af 2 úr vítaskotum og fyrirliðinn Kári Kristján Kristjánsson með 4 mörk af línunni. Pavel Miskevich varði 7 skot fyrir Eyjamenn.
Eyjamenn byrjuðu síðari hálfleik á því að auka muninn aftur í þrjú mörk í stöðunni 20:17 fyrir ÍBV með marki frá Elís Þór Aðalsteinssyni. Ekki má s
Segja að mikill munur hafi verið á liðunum þrátt fyrir að Eyjamenn hafi leitt leikinn að mestu.
Valsmenn voru aldrei langt undan og þegar um 9 mínútur voru búnar af seinni hálfleik minnkuðu Valsmenn leikinn niður í eitt mark í stöðunni 22:21. Eyjamenn tóku þá leikhlé og juku í kjölfarið forskotið aftur í tvö mörk og staðan 23:21 fyrir ÍBV.
Þegar 15 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fékk Miodrag Corsovic beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Andra Erlingssyni í stöðunni 24:23 fyrir ÍBV. Eftir þetta tókst Eyjamönnum að auka muninn aftur í þrjú mörk stöðunni 28:25 fyrir ÍBV.
Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum tókst Valsmönnum að jafna leikinn í stöðunni 30:30 og komast yfir í 31:30 eftir að hafa unnið boltann strax aftur. Eyjamenn marki undir í fyrsta skiptið í leiknum.
Kári Kristján Kristjánsson jafnaði strax fyrir ÍBV áður en að Pavel varði víti frá Kristófer Mána Jónssyni. Björgvin Páll varði síðan í næstu sókn ÍBV og ljóst að lokamínútur leiksins yrðu æsispennandi.
Valsmenn náðu ekki að skora úr næstu sókn hjá sér og stuttu seinna komst Gabriel Martinez inn úr horninu fyrir ÍBV en skaut í stöng. Staðan ennþá 31:31.
Valsmenn brunuðu upp í sókn en fengu dæmdan á sig ruðning þegar 23 sekúndur voru eftir af leiknum og staðan ennþá 31:31.
Eyjamenn keyrðu upp í sókn og freistuðu þess að skora sigurmark leiksins. Eyjamenn tóku í kjölfarið leikhlé til að skipuleggja lokasókn sína. Hún gekk ekki upp og fengu eyjamenn aukakast þegar leiktíminn var liðinn sem fór í varnarvegginn.
Niðurstaðan jafntefli 31:31 í æsispennandi leik.
Markahæstur í liði Valsmanna var Bjarni í Selvindi með 7 mörk og varði Björgvin Páll Gústavsson 10 skot, þar af eitt vítaskot.
Í liði ÍBV var fyrirliðinn Kári Kristján Kristjánsson markahæstur með 7 mörk og varði Pavel Miskevich 12 skot, þar af eitt vítaskot.