Mjög þægilegt fyrir þjálfarann

Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er búinn að vera með liðið í átta ár og ég held að okkur hafi sex sinnum verið spáð Íslandsmeistaratitlinum,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is á kynningarfundi HSÍ á Grand Hótel í Reykjavík í vikunni.

Valskonum, sem unnu þrefalt á síðustu leiktíð, er spáð Íslandsmeistaratitlinum á komandi keppnistímabili liðið var óstöðvandi á síðustu leiktíð.

„Þessi spá kemur mér ekkert á óvart þar sem við erum með mjög vel mannað lið. Á sama tíma hafa hin liðin verið að styrkja sig, bæði Haukar og Fram sem dæmi, og ég á von á mun jafnari toppbaráttu en í fyrra,“ sagði Ágúst.

Myndi vilja sjá fleiri góð lið

Síðasta tímabil var einstaklega þægilegt hjá Valskonum og samkeppnin lítil sem engin.

„Sem mikill stuðningsmaður kvennahandboltans þá myndi ég vilja sjá fleiri góð lið og meiri samkeppni. Fyrir mig sem þjálfara þá var þetta mjög þægilegt í fyrra en þetta var klárlega einsdæmi, þó það hafi verið magnað afrek. Unglingalandsliðin okkar hafa verið að gera það mjög gott í sumar og ég á von á mun meiri samkeppni á toppnum en oft áður,“ sagði Ágúst.

Ætla sér stóra hluti í Evrópu

En hvernig heldur Ágúst leikmönnum liðsins á tánum, ár eftir ár?

„Við erum með stóran og breiðan hóp og það er mikið hungur til staðar. Við tökum þátt í Evrópudeildinni í ár og við ætlum okkur stóra hluti þar. Við þurfum að vera með stóran og góðan hóp til þess að geta sinnt þessu leikjaálagi sem best. Það er nóg af verkefnum í vetur og ég finn fyrir mikilli tilhlökkun innan liðsins að hefja leik,“ bætti Ágúst við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert