„Það eina sem ég þarf eru tíu dagar á Tenerife“

Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég passa mig á því að halda í ákveðinn aga og að undirbúa liðið vel fyrir alla leiki,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is á kynningarfundi HSÍ á Grand Hótel í Reykjavík í vikunni.

Valskonum, sem unnu þrefalt á síðustu leiktíð, er spáð Íslandsmeistaratitlinum á komandi keppnistímabili. Liðið var óstöðvandi á síðustu leiktíð en Ágúst hefur verið lengi í þjálfarabransanum og er á leið inn í sitt áttunda tímabil sem þjálfari Vals.

„Við höfum aðeins verið að breyta um vörn sem er alltaf ákveðin áskorun fyrir þjálfara. Ég reyni að ýta á mig, þjálfarateymið og leikmennina líka. Vonandi gengur þetta allt saman vel hjá okkur og við endum á að vinna þetta en það þarf bara að koma í ljós,“ sagði Ágúst þegar hann var spurður að því hvernig hann haldi sjálfum sér á tánum.

Brennur fyrir handboltann

En finnst honum alltaf jafn gaman að þjálfa?

„Mér finnst þetta alltaf jafn gaman og ég brenn fyrir þetta. Það eina sem ég þarf eru tíu dagar á Tenerife, smá frí, en annars er ég bara alltaf ferskur. Ég fer líka út með unglingalandsliðunum á sumrin þannig að maður lifir og hrærist í þessum handbolta, nánast alla daga ársins. Eins og ég sagði áðan, þá eru þetta tíu dagar á Tene sem duga kallinum, og svo er maður bara mættur aftur á fulla ferð,“ bætti Ágúst við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert