„Efast stórlega um að hún fái símtalið í ár“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Ágúst Jóhannsson.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Ágúst Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals í handknattleik kvenna, reiknar ekki með því að heyra í Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur fyrir komandi keppnistímabil í handboltanum.

Anna Úrsúla hefur nokkrum sinnum lagt skóna á hilluna en alltaf hefur Ágústi tekist að fá hana til þess að koma aftur.

Hún var í stóru hlutverki með Valsliðinu á síðustu leiktíð þegar liðið vann þrefalt, þrátt fyrir að vera orðin 39 ára gömul og að hafa lítið æft undanfarin ár, en hún hefur átta sinnum orðið Íslandsmeistari á ferlinum.

Hefur ekki heyrt í Önnu Úrsúlu

„Heyrðu já hún mætir á æfingu hjá okkur í kvöld,“ sagði Ágúst og hló þegar hann var spurður að því hvort hann væri búinn að heyra í Önnu Úrsúlu fyrir tímabilið.

„Nei, nei ég er að grínast. Ég hef ekkert heyrt í henni og ég efast um ég eigi eftir að heyra í henni um endurkomu á völlinn í ár.

Mér finnst reyndar alltaf gaman að heyra í henni en ég efast stórlega um að hún fái símtalið í ár,“ bætti Ágúst við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert