Grótta lagði KA að velli, 29:25, í síðasta leiknum í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í dag.
Grótta komst í 7:2 á fyrstu átta mínútum leiksins. KA minnkaði muninn fljótlega í 8:7, jafnaði í 10:10 og komst fyrst yfir 14:13 rétt fyrir hlé. Í hálfleik var staðan jöfn, 15:15.
Í síðari hálfleik var jafnt á öllum tölum þar til Grótta breytti stöðunni úr 21:21 í 27:21 og á þeim kafla réðust úrslitin.
Jón Ómar Gíslason skoraði 9 mörk fyrir Gróttu og Jakob Ingi Stefánsson 7, og Magnús Gunnar Karlsson varði 11 skot í marki liðsins.
Daði Jónsson og Dagur Árni Heimisson skoruðu 6 mörk hvor fyrir KA og Bruno Bernat varði 13 skot í marki Akureyrarliðsins.