Valur í Evrópudeildina

Miodrag Corsovic í miðju skoti í fyrri leik liðanna.
Miodrag Corsovic í miðju skoti í fyrri leik liðanna. mbl.is/Ólafur Árdal

Valur tryggði sér sæti í Evrópudeildinni í handbolta þrátt fyrir 32:24-tap gegn Spacva frá Króatíu í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í Króatíu í dag. 

Valur sigraði, 34:25, í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda í síðustu viku og vann því einvígið með einu marki eða 58:57. 

Spacva byrjaði leikinn betur og komst snemma í 4:1. Valur minnkaði muninn í 4:3 og 7:5. Á 11. mínútu skoraði Ivan Lasic og kom Spacva í 9:5. Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, tók þá leikhlé. 

Í kjölfarið náði Valur að minnka muninn í 11:8. Spacva gaf þá í og jók forskotið í 14:8. Óskar Bjarni tók þá annað leikhlé. 

Spacva hélt áfram að auka forskotið og í hálfeik var staðan 19:10 sem þýddi að jafnt væri í einvíginu. 

Bjarni í Selvindi var markahæstur í liði Vals með fjögur mörk í fyrri hálfleik. Í liði Spacva var það Patrik Maros með sex mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði aðeins tvö skot í fyrri hálfleik en Jens Sigurðarson varði eitt. Sandro Kolar í marki Spacva varði sex skot.  

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn ágætlega og náðu að minnka muninn í sex mörk. Borna Mazurna, leikmaður Spacva, fékk rautt spjald í stöðunni 25:18. 

Stuttu síðar tók Spacva leikhlé og í kjölfar þess náði liðið að komast í 29:21. Valsmenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í 29:23 þegar níu mínútur voru eftir. 

Lokamínútur leiksins voru æsispennandi og komst Spacva aftur í átta marka forystu þegar rétt rúm ein mínúta var eftir.

Spacva þurfti því bara eitt mark til að jafna einvígið en það tókst ekki og endaði leikurinn með 32:24 sigri Spacva.

Markahæstur í liði Vals var Bjarni í Selvindi með sjö mörk en Andri Finnsson og Ísak Gústafsson skoruðu fjögur mörk hvor. Maros var markahæstur króatíska liðsins með níu mörk.

Björgvin Páll átti góðan síðari hálfleik í marki Vals en hann endaði með átta vörslur. Kolar átti frábæran leik í marki Spacva en hann var með tólf varða bolta eða sem gerir tæplega 35% markvörslu. 

Lið Vals: Björgvin Páll Gústavsson (M), Jens Sigurðarson (M), Bjarni í Selvindi, Agnar Smári Jónsson, Viktor Sigurðsson, Úlfar Páll Monsi Þórðarson, Daníel Örn Guðmundsson, Ísak Gústafsson, Dagur Leó Fannarsson, Miodrag Corsovic, Róbert Aron Hostert, Allan Norðberg, Þorvaldur Örn Þorvaldsson, Alexander Petersson, Kristófer Máni Jónasson, Andri Finnsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert