Þórir hættir með norska liðið

Þórir Hergeirsson stýrir Noregi í síðasta skipti á EM í …
Þórir Hergeirsson stýrir Noregi í síðasta skipti á EM í lok árs. Kristinn Magnússon

Þórir Hergeirsson mun ekki framlengja samning sinn við norska handknattleikssambandið og hættir hann því með kvennalandslið þjóðarinnar eftir Evrópumótið í lok árs.

Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi sem haldinn var í Ósló í dag.

Þórir hefur náð stórkostlegum árangri með norska liðið síðan hann tók við því árið 2009 og gert Noreg að ólympíumeistara í tvígang, heimsmeistara í þrígang og Evrópumeistara fimm sinnum.

Á síðasta stórmóti gerði hann norska liðið að ólympíumeistara í París í ágúst. 

„Ef ég er heppinn á ég 10-12 ár eftir í bransanum og ég væri til í að gera eitthvað annað en ég hef ekki hugmynd um hvað það verður,“ sagði hann m.a. á fundinum.

Þórir var aðstoðarþjálfari norska liðsins á árunum 2001 til 2009 áður en hann tók við sem aðalþjálfari en hann hefur starfað við þjálfun landsliða Noregs samfleytt frá árinu 1994, eða í þrjátíu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert