Leikmenn norska kvennalandsliðsins í handbolta kveðja Þóri Hergeirsson um áramótin en Íslendingurinn hefur ákveðið að láta staðar numið sem þjálfari liðsins þegar samningur hans rennur út í lok árs.
Stórskyttan Henny Reistad segist eiga Þóri margt að þakka.
„Ég hef lært ótrúlega mikið af honum bæði sem þjálfara og manneskju og er mjög þakklát fyrir að hafa verið hluti af liðinu hans. Ég hlakka til að spila á síðasta stórmótinu hans í desember“, sagði Reistad við TV 2 Norge.
Þórir hefur starfað hjá kvennalandsliðinu síðan árið 2001, fyrst sem aðstoðarþjálfari en hann tók við starfi aðalþjálfara árið 2009 og undir hans stjórn hefur norska liðið unnið alla titla sem í boði eru oftar en einu sinni.
„Það hefur enginn landsliðþjálfari verið svona lengi með lið og náð viðlíka árangri. Ég fékk kökk í hálsinn þegar ég frétti að hann væri að hætta, þetta er hrikalega sorglegt“, sagði Camilla Herrem.