Lungann úr leiknum með tvo 17 ára inn á

Magnús Stefánsson
Magnús Stefánsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, var virkilega ánægður með leikmenn sína eftir tveggja marka sigur liðsins á Stjörnunni í Vestmannaeyjum í kvöld. Lokatölur 33:31 fyrir ÍBV sem var yfir í hálfleik 18:16.

„Á seiglunni, ég held að það sé rétta orðið að við höfum unnið þetta á seiglunni,“ sagði Magnús þegar hann var spurður hvernig hans menn hefðu unnið leikinn.

„Við erum að spila lungann úr leiknum með tvo sautján ára inni á vellinum, ég var að setja helling af ábyrgð á þá en á sama tíma vita þeir að þeir eru bara í ferli með að fá reynslu. Þeir mega gera mistök og þeir njóta þess að spila, þessir eldri eru svo inná að taka það á kassann þegar eitthvað fer úrskeiðis. Þessi blanda kom fínt út,“ sagði Magnús um Andra Erlingsson og Elís Þór Aðalsteinsson sem léku stóran hluta saman inni á vellinum.

„Við gerum fullt af mistökum sem þú sérð síður hjá reynslumeiri mönnum en við sjáum líka frábærar sóknir sem þeir framkvæma og liðið í heild sinni. Varnarleikurinn var mjög góður á köflum og ég hefði viljað fá alveg 8-10 bolta varða í viðbót, miðað við varnarleikinn,“ sagði Magnús en Petar Jokanovic varði sex skot í markinu og Pavel Miskevich ekkert á sínum 15 mínútum.

Magnús Stefánsson
Magnús Stefánsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn voru án sterkra leikmanna í dag, Gabríel Martinez, Róbert Sigurðarson og Dagur Arnarsson voru allir fjarri góðu gamni.

„Gabríel er búinn að vera veikur í þrjá daga og Róbert lagðist í bælið í gær. Geggjað hjá Degi sem er uppi á spítala ásamt konunni sinni að eignast barn, það hefur vonandi gengið eins vel og hugsast getur og vonandi heilsast konu og barni vel,“ sagði Magnús en þessi forföll settu strik í reikninginn í undirbúningi liðsins.

„Við þetta riðlast aðeins okkar plön, ég var klárlega með Dag inni í okkar plönum, hann er stór póstur hjá okkur og spilaði frábærlega í síðasta leik á móti Val. Það er vont að missa hann út úr sóknarleiknum ásamt Gabríel og að sama skapi vont að missa Róbert út úr varnarleiknum.

Mér fannst starfið okkar skína í gegn núna, við fáum Jason inn úr 3. flokknum sem er 18 ára, Andri og Elís þurfa að taka fleiri mínútur en þeir reiknuðu með, báðir 17 ára. Vissulega riðlast planið en aðrir stíga upp sem er geggjað fyrir þjálfara á hliðarlínunni, að sjá aðra taka við keflinu.“

Eyjamenn voru 4:8 undir og síðan 11:13 undir þegar þeir taka leikhlé og snúa leiknum. Var Magnús orðinn eitthvað stressaður?

„Ég var ekki stressaður, þú horfir á liðið þitt og veist hvað býr í þeim, þú sérð byrjunarkaflann og það er eins og við séum fastir í öðrum gír, við drögum frá og gerum það fínt en það er hægt. Við tókum leikhlé og spjöllum saman, þá fundu menn næsta gír og þú sérð tempóið fara upp og allar árásir verða aðeins meira aggresífar og þá sástu menn sýna sitt rétta andlit. Stundum þarf að kveikja á réttu tökkunum og þeir taka við inni á vellinum á meðan ég stend bara og fylgist með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert