Danska handboltaliðið Fredericia lék í fyrsta skipti í háa herrans tíð í Meistaradeild Evrópu á fimmtudagskvöld. Farangur liðsins týndist á ferðalaginu frá Jótlandi til Búkarest.
Dinamo Bucaresti vann 37:28 en stórleikur Hauks Þrastarsonar fyrir rúmenska liðið hafði mikið að segja. Undirbúningur danska liðsins var ekki sá besti en leikmenn þurftu að fara í búðir og kaupa nærbuxur og aðrar nauðsynjavörur á leikdag.
„Ferðatöskurnar okkar flestra týndust í tengifluginu á leiðinni til Rúmeníu. Sem betur fer vorum við með skóna okkar og boltana í handfarangri,“ sagði hornamaðurinn Martin Bisgaard við TV2 í Danmörku.
Taska sjúkraþjálfarans og tafla Guðmundar skiluðu sér ekki heldur til Rúmeníu. „Ég var nokkuð rólegur. Ég hef lent í ýmsu þannig að þetta var ekki stórt vandamál. Það var pínu óþægilegt að vera ekki með taktíktöfluna sem ég hef notað í langan tíma en það er eins og það er,“ sagði landsliðsþjálfarinn fyrrverandi.