Þýskalandsmeistararnir í Magdeburg tryggðu sér úrslitaleik við Veszprém frá Ungverjalandi á heimsmeistaramóti félagsliða í handbolta í Kaíró í Egyptalandi í kvöld.
Magdeburg hafði þá betur gegn Al Ahly SC frá Egyptalandi, 28:24. Staðan í hálfleik var óvænt 15:12, Al Ahly í vil, en Magdeburg var sterkari aðilinn í seinni hálfleik.
Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö.
Bjarki Már Elísson leikur með Veszprém sem vann Evrópumeistara Barcelona, 39:34, í hinum undanúrslitaleiknum fyrr í dag.
Úrslitaleikurinn fer fram á fimmtudaginn kemur.