„Allt of margir tapaðir boltar er ástæðan af hverju við töpuðum þessum leik, stutta svarið,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, eftir tap á heimavelli gegn Val, 30:23, í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld.
„Leikurinn er alveg í jafnræði í fyrri hálfleik en við töpum aðeins of mikið af boltum og þeir ná hröðum sóknum á okkur sem var ástæðan af hverju þeir voru yfir í hálfleik. Svo í seinni hálfleik heldur þetta áfram og við gefum svo bara eftir í lokinn .
Í staðin fyrir að eiga möguleika í að minnka í eitt/tvö mörk þá klúðrum við og þeir fara upp og skora og við gefumst upp í lokinn, síðustu þrjár mínúturnar, og látum þetta enda í sjö mörkum í stað þess að enda þetta eins og menn, það var lélegt hjá okkur.“
Valur skoraði fimm mörk úr hraðaupphlaupi í leiknum og Ásbirni fannst vörnin annars vera góð.
„Vörnin var fín þegar við stóðum hana, þegar við komumst í vörn, en því við töpuðum mörgum boltum þá vorum við að fá hraðaupphlaup á okkur. Ég veit ekki hvað þeir skora mörg úr hraðaupphlaupum og seinni bylgjum, ég held að vörnin sex á sex hafi staðið sig nokkuð vel og Daníel var góður í markinu, hann var okkar besti leikmaður í kvöld.
Við þurfum bara að skoða okkar leik, af hverju við erum að tapa þessum boltum, af hverju við erum ekki að ná að klára fleiri sóknir með skoti ég held að við þurfum að skoða mest.“