„Þetta er náttúrlega galið dæmi“

Sigurjón Guðmundsson fagnar í leik með HK.
Sigurjón Guðmundsson fagnar í leik með HK. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Handknattleiksmarkvörðurinn Sigurjón Guðmundsson hefur komið við sögu hjá Noregsmeisturum Kolstad í undanförnum leikjum eftir að norski landsliðsmarkvörðurinn Torbjörn Bergerud meiddist á dögunum.

Sigurjón, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við Kolstad í sumar sem þriðji markvörður liðsins og aðalmarkvörður venslaliðsins Charlottenlund, sem leikur í norsku B-deildinni.

Þetta kemur þannig upp að Kolstad vantar þriðja markmann fyrir tímabilið. Sigvaldi [Björn Guðjónsson] mælir með mér og við förum að tala saman.

Þeir vilja fá mig, fyrst og fremst til þess að æfa með þeim en svo meiðist Bergerud í Meistaradeildarleik fyrir tveimur vikum. Þá er ég bara næstur inn og maður þurfti óvænt að vera klár í þetta.

Mér finnst ég hafa náð að grípa tækifærið þegar það hefur komið, sagði Sigurjón í viðtali í hlaðvarpsþættinum Handkastið.

„Allt eðlilegt við það“

Hann er í leikmannahópi Kolstad sem heimsækir Nantes í Frakklandi í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

„Ég fékk svolítið óvænt tækifærið í bikarleik á móti Bergen, kom inn á og náði að vera fyrir nokkrum boltum. Eftir það var leikur í deildinni þar sem ég fékk líka tækifæri og varði nokkur skot.

Svo var maður mættur í útileik á móti Elverum, 5.500 manns. Allt eðlilegt við það að fara úr Kórnum fyrir framan kannski 50 manns og vera svo mættur í útileik á móti Elverum og spila í 20 mínútur.

Þetta er náttúrlega bara galið dæmi. Núna er ég á leiðinni til Frakklands til að spila í Meistaradeildinni. Þú getur ekki skrifað þessa sögu held ég,“ sagði Sigurjón einnig.

Viðtalið við Sigurjón má hlusta á í heild sinni hér, en það hefst eftir um klukkutíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert