Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var kátur er hann ræddi við mbl.is í kvöld, enda nýbúinn að horfa á lið sitt vinna topplið Gróttu, 30:29, í úrvalsdeild karla í handbolta.
Grótta byrjaði mun betur, en Stjarnan vann sig inn í leikinn og vann að lokum eins marks sigur eftir spennandi leik.
„Við fórum að spila vörn eftir 20 mínútur og í leiðinni sókn. Við vorum ekki með fyrstu 20 mínúturnar. Þegar við spiluðum okkar leik vorum við flottir. Gróttuliðið er ógeðslega erfitt og heldur alltaf áfram,“ sagði hann.
Sigurður Dan Óskarsson átti mjög góðan leik í marki Stjörnunnar og hélt sínu liði á floti í fyrri hálfleik.
„Hann varði allt sem fór á helvítis markið. Hann var geggjaður. Við núlluðum út Fjölnisleikinn í kvöld. Ég skil ekki hvernig við töpuðum honum. Við áttum kannski ekki skilið að vinna þetta, en það var geðveikt að klára þetta,“ sagði hann.
Stjarnan hefur unnið Val og topplið Gróttu í vetur en líka tapað fyrir nýliðum Fjölnis.
„Þetta er rosalega jöfn deild. Það eru allir að vinna alla. Ef þú ert ekki 100% klár í alla leiki þá fer þetta illa. Við höfum ekki efni á að mæta 80% í 40 mínútur. Við þurfum að vera 100% í 60 mínútur. Þá erum við drullugóðir,“ sagði Hrannar.
Adam Thorstensen er búinn að spila vel í marki Stjörnunnar á tímabilinu en þjálfarateymið ákvað að gefa Sigurði Dan tækifærið í kvöld og hann greip það með báðum höndum.
„Adam er búinn að vera frábær en Siggi var geggjaður á undirbúningstímabilinu, en svo meiddist hann og Adam kom inn. Gísli bar þetta undir mig og við vorum sammála um að þetta væri hans tími. Djöfull var hann góður,“ sagði Hrannar.