Danska handknattleiksgoðsögnin Morten Stig Christensen er látinn, 65 ára að aldri. Hann var bráðkvaddur í dag er hann fékk skyndilegt hjartaáfall.
Christensen var formaður danska handknattleikssambandsins þegar hann lést og áberandi á sjónvarpsskjáum Dana sem sérfræðingur um handknattleik. Var hann um tíma yfirmaður íþróttadeildar danska ríkissjónvarpsins.
Hann lék á sínum tíma 190 landsleiki fyrir Danmörku og skoraði í þeim 445 mörk frá 1976 til 1988. Fór hann á þrenna Ólympíuleika með danska liðinu. Hann lék lengst af með danska liðinu Gladsaxe og svo norska liðinu Stavanger.