Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum ánægður með 6 marka sigur á Aftureldingu í toppslag umferðarinnar í Íslandsmóti karla í handbolta í dag. Spurður að því hvað hafi skapað sigur FH-inga í dag sagði Sigursteinn þetta.
„Ég er mjög ánægður með sigurinn og spilamennsku okkar hérna nánast allan leikinn. Varnarlega vorum við frábærir í 45-50 mínútur og sóknarlega var nýtingin frábær og við vorum að skora úr færum sem við höfum verið í vandræðum með í vetur.“
Í fyrri hálfleik koma fyrstu 6 af 9 mörkum FH af línunni. Var það eitthvað sem var undirbúið í ykkar leik?
„Nei það kristallast samt kannski bara í því að við erum mjög þolinmóðir og agaðir í sóknarleiknum í dag. Við biðum eftir réttu færunum og þegar við erum ekki að flýta okkur að þá oftast opnast hornið eða línan.“
Í seinni hálfleik þá minnkar Afturelding muninn í 5 mörk eftir að FH hafði verið 8 mörkum yfir og þú tekur í kjölfarið leikhlé. Eftir leikhlé sá Afturelding aldrei til sólar og þið genguð frá leiknum. Ég spyr því hvað var sagt í þessu leikhléi?
„Við vorum aðeins búnir að missa sjónar af því sem skipti máli varnarlega. Vorum farnir að gefa auðveld mörk og stíga út úr því sem við ætluðum að gera. Okkur tókst bara að laga það og náðum fókus og kláruðum leikinn. Síðan gáfum við aðeins eftir þegar leikurinn var í rauninni unninn.“
Þetta hefði samt orðið alvöru leikur aftur ef Afturelding hefði minnkað muninn meira ekki satt?
„Já það er það hættulega við þetta og þess vegna þarftu að halda fókus og vera agaður í 60 mínútur. Við vorum það í svona 50 mínútur í dag.“
Hvað stendur upp úr í leik FH í dag?
„Liðsheildin aðallega. Það komu margir að þessum sigri og nýtingin var góð hjá flestum en fyrst og fremst var varnarleikurinn frábær nánast allan leikinn.“
Nú tekur við landsleikjahlé áður en FH mætir KA þann 14 nóvember. Hvernig mun FH nota tímann þangað til?
„Við ætlum að byrja að blása aðeins í 3-4 daga þar sem það er búið að vera mikið að gera en síðan bara höldum við áfram að æfa og þróa okkar leik. Það var virkilega strerkt að klára þennan leik fyrir þessa pásu.“
Það var ekki að sjá á leik liðsins að það saknaði Arons Pálmarssonar. Hvernig er lið FH að taka þeim breytingum með hans brotthvarfi?
„Bara mjög vel. Við erum búnir að sýna það með tveimur fínum leikjum gegn Savehof og svo núna í kvöld. Öll lið í heiminum myndu finna fyrir því að missa Aron Pálmarsson úr sínu liði en að því sögðu þá vorum við með mjög gott lið fyrir og frábæra leikmenn og liðsheild í krikanum. Þannig að við höfum bara aðeins þurft að endurskipuleggja okkur og ná í okkar gömlu góðu gildi aftur,“ sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.