Glæsilegur lokakafli skilaði íslenskum sigri

Ísland og Bosnía Hersegóvína áttust við í 1. umferð þriðja riðils undankeppni Evrópumóts karla í handbolta 2026 í kvöld og enduðu leikar þannig að Ísland vann 32:26.

Eftir leikinn er íslenska liðið efst í 3. riðli með 2 stig líkt og Grikkland. Georgía og Bosnía Hersegóvína eru án stiga.

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og komst í 4:1 og varði Viktor Gísli Hallgrímsson fyrstu þrjú af fjórum skotum Bosníu í leiknum. Bosníumenn minnkuðu muninn í eitt mark í stöðunni 5:4 og eftir það var munurinn aldrei meiri en 1-2 mörk.

Fyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon með boltann í kvöld.
Fyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon með boltann í kvöld. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Bosníumenn jöfnuðu leikinn í stöðunni 10:10 og komust síðan yfir 11:10 með marki frá Nedim Hadzic. Íslenska liðið jafnaði leikinn og komst yfir í stöðunni 12:11 en Bosníumenn jöfnuðu í stöðunni 12:12 og þar við sat í hálfleik.

Þó svo að íslenska liðið hafi fengið á sig fá mörk í fyrri hálfleik þá var það langt frá því að vera sannfærandi, sérstaklega sóknarlega þar sem leikmenn eins og Þorgeir Gísli Kristjánsson o.fl. sáust varla.

Markahæstur í íslenska liðinu var Orri Freyr Þorkelsson með 4 mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 7 skot.

Luka Peric skoraði 4 mörk, þar af eitt úr vítaskoti og varði Benjamin Buric 5 skot.

Seinni hálfleikur var jafn og spennandi. Liðin skiptust á að ná forystu og náðu Bosníumenn mest tveggja marka forskoti í stöðunni 17:15.

Þann mun jafnaði íslenska liðið þegar Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði úr vítaskoti. Eftir það var jafnt á öllum tölum og skiptust liðin á að jafna og komast yfir allt þangað til Orri Freyr Þorkelsson kom íslenska liðinu í 24:22.

Einar Þorsteinn Ólafsson stendur vörnina í kvöld.
Einar Þorsteinn Ólafsson stendur vörnina í kvöld. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Björgvin Páll Gústavsson kom inn á í mark íslenska liðsins fljótlega í seinni hálfleiknum og varði nokkra mikilvæga bolta, meðal annars í stöðunni 25:23 sem gaf íslenska liðinu tækifæri til að ná þriggja marka forskoti. Það tókst þegar Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði af miklu öryggi og staðan orðin 26:23 fyrir íslenska liðið og 6 mínútur og 30 sekúndur eftir af leiknum.

Þorsteinn Leó átti eftir að skora fjögur mörk í röð fyrir íslenska liðið og koma því fimm mörkum yfir í stöðunni 28:23 áður en Björgvin Páll varði glæsilega. Svo var það Janus Daði Smárason sem kom íslenska liðinu sex mörkum yfir og þá tók Bosnía leikhlé.

Það þarf aftur að nefna Þorstein Leó Gunnarsson í þessari grein því hann átti sannkallaðan stórleik þegar hann kom inn á í seinni hálfleik og skoraði 8 mörk úr 9 skotum.

Íslendingar unnu að lokum 6 marka sigur eftir frábæran lokakafla í leiknum, 32:26.

Markahæstur í liði Íslands var Þorsteinn Leó Gunnarsson með 8 mörk og skal tekið fram að hann lék aðeins seinni hálfleikinn. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 8 skot og Björgvin Páll Gústavsson 3.

Í liði Bosníu var Luka Peric með 6 mörk, þar af þrjú úr vítaskotum. Benjamin Buric varði níu skot, þar af eitt vítaskot.

Ísland mætir Georgíu á sunnudag í annarri umferð riðilsins í Georgíu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 32:26 Bosnía opna loka
60. mín. Þorsteinn Leó Gunnarsson (Ísland) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert