Búnar að kortleggja þær mjög vel

Hildur Björnsdóttir í baráttu við Jóhönnu Margréti Sigurðardóttur í dag.
Hildur Björnsdóttir í baráttu við Jóhönnu Margréti Sigurðardóttur í dag. Ólafur Árdal

Hildur Björnsdóttir fyrirliði Vals var kát eftir 27:24-sigur liðsins á Kristianstad frá Svíþjóð í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta í dag.

„Það var geggjað að spila þennan leik og geggjað að fá svona marga í Valsheimilið. Við hefðum samt getað spilað betur og við gerum það úti. Það var samt gott að vinna.

Við vorum búnar að kortleggja þær mjög vel. Það er kraftur í þeim og þær eru góðar maður á mann. Við þurfum að laga alls konar hluti og við gerum það fyrir næsta leik,“ sagði hún.

Kristianstad komst yfir í seinni hálfleik, en Valur svaraði mjög vel og vann að lokum þriggja marka sigur.

„Þetta var aðeins stressandi en við förum aldrei í neitt panic. Við vitum að við getum komið til baka. Við þurfum bara aðeins að fínpússa vörnina og passa tæknifeilana. Þær eru virkilega hraðar og hraðari en liðin heima.

Þær skjóta lítið fyrir utan, ólíkt liðunum hér heima, og maður þarf að venjast því. Þær eru líka með geggjaðan línumann sem við þurfum að verjast betur,“ sagði hún.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Berta Rut Harðardóttir leika báðar með Kristianstad.

„Það var mjög skemmtilegt að fá þær í heimsókn. Maður sér þær sjaldan. Við fengum líka fleiri í stúkuna því fólk mætti til að fylgja þeim,“ sagði Hildur. En lét hún íslensku leikmennina heyra það eitthvað inni á vellinum?

„Kannski aðeins meira en við hina leikmennina, því þær skilja mann vel. Maður lætur eitthvað gossa,“ sagði hún og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka