Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Þessa skotstellingu þekkja handboltaunnendur vel sem muna aftur í níunda og tíunda áratuginn. Hér sækir leikstjórnandinn snjalli Sigurður Gunnarsson að vörn Vestur Þjóðverja í vináttulandsleik í Laugardalshöll.
Sigurður hafði þann eiginleika að geta farið beint á vörnina af miðjunni, lyft sér upp og látið vaða með góðum árangri. Myndina tók Sverrir Vilhelmsson sem myndaði á áratugi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Myndin er tekin um hásumar árið 1988 eða þegar landsliðið undirbjó sig fyrir Ólympíuleikana í Seoul. Einnig má sjá Geir Sveinsson á myndinni sem reynir að búa til blokk fyrir Sigurð á línunni.
Sigurður keppti á tveimur Ólympíuleikum fyrir Ísland, í Los Angeles 1984 og aftur í Seoul 1988. Vakti hann mikla athygli fyrir frammistöðu sína á leikunum 1984 þegar Ísland hafnaði í 6. sæti. Varð hann fjórði markahæsti leikmaðurinn á leikunum með 34 mörk og skoraði til að mynda 9 mörk gegn einu sterkasta liði sögunnar þegar Ísland gerði 22:22 jafntefli gegn Júgóslavíu sem varð ólympíumeistari. Ísland var í 8. sæti fjórum árum síðar en í millitíðinni hafnaði liðið í 6. sæti á HM í Sviss og þar var Sigurður einnig í stóru hlutverki.
Sigurður er uppalinn í Víkingi og lék lengi með liðinu. Varð hann margfaldur Íslands- og bikarmeistari með Víkingi en einnig var hann spilandi þjálfari ÍBV hér heima. Þjálfaði liðið og stjórnaði spilinu þegar ÍBV varð bikarmeistari árið 1991 eftir óvæntan sigur á Víkingi og var það fyrsti stóri bikarinn sem ÍBV vann í handboltanum. Þá var hann valinn þjálfari ársins á lokahófi HSÍ.
Erlendis lék Sigurður með Bayer Leverkusen í Þýskalandi og Coronas Tres De Mayo á Spáni. Sigurður var 3. markahæsti maður spænsku deildarinnar árið 1985 og valinn í lið ársins. Á því keppnistímabili vann hann það afrek að skoraði 14 mörk fyrir Tres De Mayo í deildarleik þegar liðið vann 28:25 útisigur á Cajamadrid. Sagði Morgunblaðið að Sigurður hafi einungis skorað þrjú markanna af vítalínunni og hafi verið tekinn úr umferð „langtímum saman.“ Hér má geta þess að hröð miðja var ekki leyfð fyrr en tólf árum síðar með tilheyrandi markaregni.
Þess má til gamans geta að Sigurður var efnilegur knattspyrnumarkvörður og lék unglingalandsleiki í þeirri íþrótt áður en hann valdi handknattleikinn. Hann spilaði nokkur sumur austur á fjörðum með Austra á Eskifirði og Hrafnkeli Freysgoða á Breiðdalsvík. Þar lék hann ýmist sem markvörður eða framherji.
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Georgíu ytra á morgun í undankeppni EM en í vikunni lagði liðið Bosníu að velli í Laugardalshöllinni.