Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, segir að ekki sé hægt að bera það saman að þjálfa liðið og spila fyrir það.
Snorri Steinn, sem er 43 ára gamall, lék 257 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 846 mörk en hann var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og í bronsliðinu á EM í Austurríki árið 2010.
Hann tók við þjálfun íslenska liðsins í júní á síðasta ári og stýrði liðinu á sínu fyrsta stórmóti á EM í Þýskalandi í janúar.
„Það er tvennt ólíkt og þú berð þetta ekkert saman,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is eftir landsleik Íslands og Bosníu þegar hann var spurður að því hvort væri skemmtilegra að spila fyrir landsliðið eða stýra því í Laugardalshöllinni.
„Manni finnst maður alltaf hálf hjálparlaus á hliðarlínunni, öskrandi og gargandi að setja einhverja gaura inn á.
Ég heldað ég hafi notið þess meira sem leikmaður en þetta er eiginlega ekki sambærilegt,“ bætti Snorri Steinn við í samtali við mbl.is.