Sterkur íslenskur útisigur í Georgíu

Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk og fékk rautt spjald.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk og fékk rautt spjald. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í handbolta gerði góða ferð til Georgíu og vann fimm marka útisigur á því georgíska, 30:25, í undankeppni EM karla í handbolta í dag. Ísland er með tvo sigra eftir tvo leiki.

Jafnt var á öllum tölum framan af og staðan 6:6 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður.

Þá skoraði Ísland þrjú mörk í röð og komst þremur mörkum yfir í fyrsta skipti, 9:6. Georgía svaraði í sömu mynt og jafnaði í 9:9 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Þá kom aftur góður kafli hjá Íslandi sem náði þriggja marka forskoti á ný, 13:10. Rétt eins og fyrr í leiknum svaraði Georgía með næstu þremur mörkum og jafnaði í 13:13.

Ísland átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleiknum er Ómar Ingi Magnússon skoraði úr víti. Ísland var því með naumt forskot í hálfleik, 14:13.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði fjögurra marka forskoti í fyrsta skipti í stöðunni 19:15 þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Viktor Gísli varði mjög vel framan af í fyrri hálfleik og sóknin gekk ágætlega hinum megin.

Munurinn var svo fimm mörk, 21:16, þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Mestur varð munurinn sjö mörk í seinni hálfleik, 25:18. Var Georgía ekki líkleg til að jafna eftir það og sterkur útisigur Íslands varð raunin.

Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason voru markahæstir hjá íslenska liðinu með sex mörk hvor. Haukur Þrastarson gerði þrjú. Viktor Gísli Hallgrímsson átti mjög góðan leik í íslenska markinu og varði 18 skot.

Næstu keppnisleikir Íslands verða á lokamóti HM í janúar, þar sem liðið er með Grænhöfðaeyjum, Kúbu og Slóveníu í riðli.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Georgía 25:30 Ísland opna loka
60. mín. Viktor Gísli Hallgrímsson (Ísland) varði skot Glæsilega varið frá Arsenashvili.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka