Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, fer afar vel af stað á Evrópumóti kvenna í handbolta en norska liðið vann stórsigur á því slóvenska, 33:26, í Innsbruck í kvöld.
Staðan í hálfleik var 16:11 og hélt norska liðið áfram að bæta í forskotið í seinni hálfleik. Munurinn varð mestur níu mörk, 33:24, en Slóvenía skoraði tvö síðustu mörkin.
Henny Reistad skoraði níu mörk fyrir Noreg og Tjasa Stanko sjö fyrir Slóveníu. Mótið er það síðasta hjá Þóri sem þjálfari norska liðsins en hann hættir með liðið eftir mót.
Heimsmeistarar Frakklands áttu ekki í vandræðum með að sigra Pólland, 35:22. Staðan í hálfleik var 18:10 og var eftirleikurinn auðveldur í seinni hálfleik hjá gríðarlega sterku frönsku liði.
Pauline Coatanea skoraði fimm mörk fyrir Frakkland og Paulina Uscinowicz gerði fjögur fyrir Pólland.
Þá vann Svíþjóð stórsigur á Norður-Makedóníu, 28:18. Sænska liðið komst í 24:8 snemma í seinni hálfleik og slakaði síðan verulega á, án þess að forskotinu yrði ógnað.
Nathalie Hagman skoraði níu mörk fyrir Svíþjóð. Enginn skoraði meira en þrjú mörk fyrir Norður-Makedóníu.