„Þetta var algjört rán“

Jóhannes Berg Andrason skoraði sjö mörk í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason skoraði sjö mörk í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ekki nógu góður leikur hjá okkur en frábært að ná að klára þetta og stela þessu svona undir lokin,” sagði Jóhannes Berg Andrason, leikmaður FH, eftir dramatískan endi á 30:29 sigri liðsins á útivelli í úrvalsdeild karla í handbolta gegn Fram.

„Við vorum að elta og vorum undir. Það var einhver værukærð yfir okkur en þegar það eru svona tíu mínútur eftir þá kviknar á okkur og við náum einhverju smá augnabliki og svo klárum við þetta. Þetta var algjört rán,” sagði Jóhannes í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Jakob Martin Ásgeirsson skoraði sigurmark FH þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum. 

„Það var geðveikt að sjá hann stela boltanum, rekja boltann upp og setja hann snyrtilega yfir höfuðið á markmanninum.“

Sig­ur­steinn Arn­dal, þjálfari FH, á hliðarlínunni í kvöld.
Sig­ur­steinn Arn­dal, þjálfari FH, á hliðarlínunni í kvöld. Arnþór Birkisson

FH er nú á toppi deildarinnar með 19 stig en ef Fram hefði sigrað, eins og stefndi í stórann part leiksins, hefðu liðin verið jöfn með 15 stig. 

„Við komum hingað til þess að vera einir á toppnum og okkur tókst það. Erum núna búnir að skilja hin liðin einhverjum stigum á eftir okkur og það er frábært að vera einir á toppnum“

FH hefur verið í þéttu prógrammi undanfarið en þeir luku keppni í Evrópudeildinni síðastliðin þriðjudag.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt ævintýri í Evrópudeildinni og gefur okkur helling. Eins og í svona leikjum, að vera í góðum takt og ótrúlega mikla trú á okkur en það er kannski fínt að fá auka daga á milli leikja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert