„Við munum læra af þessu“

Reynir Þór Stefánsson sækir að marki FH í kvöld.
Reynir Þór Stefánsson sækir að marki FH í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það var margt sem gerðist undir lokin, við stöðnuðum sóknarlega og létum boltann ekki rúlla nóg og þeir bara kláruðu þetta,“ sagði Reynir Þór Stefánsson, leikmaður Fram, í úrvalsdeild karla í handbolta eftir 30:29 tap gegn FH í kvöld.

Reynir átti sjálfur góðan leik og var markahæstur með 10 mörk.

Er ekki svekkjandi að eiga sjálfur stórleik en svo endaði þetta svona?

„Jú, klárlega svekkjandi en við þurfum að læra af þessu og koma þessu í lag,“ sagði Reynir í viðtali við mbl.is eftir leikinn en auk þess að skora tíu mörk fiskaði hann þrjú víti en FH-ingar reyndu allt til þess að stöðva hann.

„Maður var orðinn smá þreyttur á þessu í lokin en svona er þetta bara, þetta er handbolti.“ 

Fram gat jafnað stigafjölda FH með sigri í dag en er nú með 15 stig í fjórða sæti. Fram var fimm mörkum yfir á tímapunkti í seinni hálfleik en töpuðu leiknum á lokasekúndunum.

 „Við erum með ungt lið og við munum læra af þessu og verða betri. Þeir breyttu í 5-1 vörn og við stöðnum sóknarlega og boltinn fer að leka inn hjá okkur í vörninni, þetta er drullu gott lið og þeir refsa fyrir þannig.“

Reynir er 19 ára og á meðal yngstu leikmanna í 35 manna hópnum sem kemur til greina á heims­meist­ara­mót karla næstkomandi janúar.

„Það er heiður að vera valinn inn í 35 manna hópinn í landsliðinu og maður vill vera í landsliðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert