Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA sá ljósa punkta í leik KA í kvöld þrátt fyrir sjö marka tap gegn Haukum á Ásvöllum. Spurður út í leikinn sagði Halldór að varnarleikurinn hafi orðið sínu liði að falli í kvöld. Spurður út í leikinn í heild sinni sagði Halldór þetta:
„Við byrjum þennan leik vel og höldum í við Haukana framan af. Síðan kemur auðvitað sá kafli þar sem það stendur ekki steinn yfir steini hjá okkur í varnarleiknum. Það var síðan sagt í hálfleiksræðunni að laga varnarleikinn og fá smá gleði í þetta. Það gekk eftir því í seinni hálfleik minnkuðum við muninn niður í tvö mörk og það er jákvætt því það hefur svolítið loðað við okkur að tapa hálfleikjunum með 15 mörkum.“
Það sem ég vil fá út úr þessu viðtali er útskýring á því af hverju KA-liðinu tekst að halda í við flest lið framan af en síðan fellur leikur liðsins eins og spilaborg. Hvað veldur því?
„Það er svo misjafnt. Í dag þá er það varnarleikurinn þar sem við erum bara lélegir en á sama tíma góðir í sókninni og skorum 31 mark. Ef þú ætlar að vinna Hauka á útivelli þá þarftu að eiga frábæran varnarleik. Það sem sterkari liðin eins og Haukar ná að notfæra sér eru þessir vondu kaflar sem við eigum því miður á móti flestum liðum en liðin sem eru fyrir neðan okkur eru kannski ekki jafn góð að notfæra sér.“
Næsti leikur hjá ykkur er á móti Aftureldingu á Akureyri. KA heimilið er að færa þínum mönnum stig í pokann en KA tapaði stórt á móti Mosfellingum í Mosfellsbæ. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?
„Við erum flottir á heimavelli. Við ætlum að vinna þar og förum fullir sjálfstrausts í leikinn á móti Aftureldingu og þar skiptir máli að leggja inn alla okkar baráttu og hjarta í leikinn,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is.