Þorsteinn Leó Gunnarsson átti enn og aftur góðan leik með Porto í gærkvöld þegar liðið vann stórsigur á Povoa, 42:22, í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik.
Þorsteinn var markahæstur í liði Porto með 9 mörk og hann er nú fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar með 85 mörk í 15 leikjum liðsins.
Porto komst á toppinn með sigrinum sem var sá fjórtándi í fimmtán leikjum. Sporting hefur hins vegar unnið alla fjórtán leiki sína en á leik til góða gegn Benfica sem var frestað í gær.