Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson hefur skrifað undir samning við handknattleikslið Barcelona á Spáni.
Það er spænski miðillinn Mundo Deportivo sem greinir frá þessu en Viktor Gísli, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn Wisla Plock í Póllandi.
Hann gekk til liðs við félagið frá Nantes síðasta sumar og skrifaði undir eins árs samning við pólsku meistarana sem rennur út næsta sumar.
Mundo Deportivo greinir frá því að Viktor Gísli muni deila markvarðastöðunni með Emil Nielsen, landsliðsmarkverði Danmerkur, en hann mun svo ganga til liðs við Veszprém í Ungverjalandi fyrir tímabilið 2026-27.
Viktor Gísli var einn besti leikmaður Íslands á nýliðinu heimsmeistaramóti þar sem íslenska liðið hafnaði í 9. sæti en hann hefur leikið með GOG, Nantes og nú Wisla Plock á atvinnumannaferlinum.