Haukar unnu ÍBV í spennandi leik

Andri Fannar Elísson fagnar marki í kvöld.
Andri Fannar Elísson fagnar marki í kvöld. mbl.is/Eyþór

Haukar unnu ÍBV 28:24 í 16. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði. 

Eftir leikinn eru Haukar í 5. sæti með 18 stig en ÍBV er í 7. sæti með 16 stig.

Haukar höfðu undirtökin í fyrri hálfleik er frá er talin staðan 5:5 þegar ÍBV jafnaði. Haukamenn voru mun sprækari og ákafari í sínum aðgerðum sem skilaði því að heimamenn byggðu fljótlega upp fínt forskot. Eftir 20 mínútna leik var munurinn 4 mörk í stöðunni 12:8. Haukar gerðu enn betur og náðu 6 marka forskoti í stöðunni 14:8. 

Eyjamenn breyttu um varnarafbrigði í stöðunni 16:11 og spiluðu mjög framliggjandi vörn. Ásgeir Örn þjálfari Hauka áttaði sig fljótlega á því að hans menn byrjuðu strax að hiksta í sókninni og tók leikhlé. Það virkaði vel því Haukar leystu vel úr bragði Eyjamanna. 

Þegar innan við mínúta var eftir af fyrri hálfleik gátu Haukar aukið muninn í 7 mörk í stöðunni 18:12 en Andri Erlingsson stal boltanum fyrir Eyjamenn og minnkaði muninn í 5 mörk úr hraðaupphlaupi.

Staðan í hálfleik 18:13 fyrir Hauka.

Andri Fannar Elísson skoraði 6 mörk í fyrri hálfleik fyrir Hauka. Þrjú af mörkum hans komu úr vítaskotum. Aron Rafn Eðvarðsson varði 6 skot. 

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði 4 mörk, þar af 2 úr vítum fyrir Eyjamenn. Petar Jokanovic varði 6 skot í marki gestanna.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn. Petar Jokanovic varði fyrsta skot seinni hálfleiks og Eyjamenn skunduðu í sókn og minnkuðu muninn niður í 4 mörk. Hergeir Grímsson svaraði því strax í næstu sókn fyrir Hauka og staðan 19:14 fyrir Hafnfirðinga.

Haukar héldu áfram að leiða leikinn með 4-5 marka forskoti sem verður að teljast þægilegur munur fyrir það lið sem er yfir en heimamenn náðu þó aldrei að hrista Eyjamenn alveg af sér. 

Eyjamenn gátu minnkað muninn niður í þrjú mörk í stöðunni 20:16 og það tókst þegar Daniel Vieira skoraði fyrir Eyjamenn og staðan 20:17 fyrir Hauka.

Eyjamenn voru alls ekki hættir og stigu heldur betur upp í seinni hálfleiknum. Hægt og rólega söxuðu þeir á forskot Hauka og á endanum minnkuðu þeir muninn í eitt mark í stöðunni 21:20 fyrir Hauka.

Eyjamenn fengu mörg tækifæri til að jafna leikinn í kjölfarið en tókst ekki. Í stað þess skoraði Hergeir Grímsson næsta mark úr víti og staðan orðin 22:20 fyrir Hauka.

Haukar náðu þriggja marka forskoti í stöðunni 23:20 en Eyjamenn voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og minnkuðu muninn aftur í eitt mark í stöðunni 23:22 og 8 mínútur eftir af leiknum. Þá tók Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka leikhlé. 

Haukar náðu aftur þriggja marka forskoti í kjölfarið og staðan orðin 25:22 þegar rúmlega 5 mínútur voru eftir af leiknum. Eyjamenn minnkuðu þá muninn úr vítakasti og í kjölfarið varði Petar Jokanovic í næstu sókn Hauka. Freistuðu Eyjamenn þess að minnka muninn enn og aftur niður í eitt mark.

Það tókst þegar Dagur Arnarsson skoraði og staðan 25:24 fyrir Hauka og þrjár mínútur eftir af leiknum. Enn og aftur fengu Eyjamenn tækifæri til að jafana í stöðunni 25:24 en Daniel Vieira skaut boltanum yfir. Haukar brunuðu upp í hraðaupphlaup og því skoraði Sigurður Snær Sigurjónsson og staðan 26:24 þegar 2:17 voru eftir af leiknum.

Eyjamenn tóku þá leikhlé til að freista þess að fá enn eitt tækifærið til að minnka muninn og jafna. Það tókst ekki því Aron Rafn Eðvarðsson varði skot Eyjamanna og Haukar fengu tækifæri til að auka muninn í þrjú mörk þegar 1:30 var eftir.

Birkir Snær Steinsson skoraði stórkostlegt mark frá miðjum vellinum þegar ein mínúta var eftir og Haukar að fá dæmda á sig leiktöf. Má segja að þetta mark hafi tryggt sigur Hauka því þeir komust þremur mörkum yfir með markinu.

Fór svo að Haukar unnu langþráðan sigur, 28:24.

Andri Fannar Elísson skoraði 8 mörk, þar af 4 úr vítum fyrir Hauka og varði Aron Rafn Eðvarðsson 12 skot. 

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði 10 mörk fyrir Eyjamenn og voru 5 úr úr vítum. Petar Jokanovic varði 13 skot. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Haukar 28:24 ÍBV opna loka
60. mín. ÍBV tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert