Íslendingalið Kolstad vann glæsilegan sigur á franska liðinu Nantes, 29:28, í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í kvöld.
Sigurinn var mikilvægur fyrir Kolstad í baráttunni um að komast upp úr riðlinum og í umspil um að komast í átta liða úrslit. Kolstad er nú í sjötta sæti, síðasta umspilssætinu, með átta stig.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad en Benedikt Gunnar Óskarsson, Arnór Snær Óskarsson og Sveinn Jóhannsson komust ekki á blað að þessu sinni.
Í sama riðli vann Aalborg magnaðan sigur á Barcelona, 36:35, þar sem danski markvörðurinn Niklas Landin tryggði heimamönnum í Aalborg sigur með því að verja vítakast á lokasekúndunni.
Barcelona er í efsta sæti með 17 stig og Aalborg er sæti neðar með 15.
Janus Daði Smárason lék þá með Pick Szeged þegar liðið tapaði óvænt fyrir botnliði RK Zagreb, 26:27, á heimavelli.
Janus Daði komst ekki á blað hjá Szeged, sem er í fjórða sæti riðilsins með 12 stig.