Haukar unnu ÍBV 28:24 í úrvalsdeild karla í handbolta á Ásvöllum í kvöld í spennandi leik. Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var að vonum ánægður með sigurinn þegar mbl.is náði af honum tali strax eftir leik.
Er það léttir að hafa unnið þennan leik eftir tvö sár eins marks töp í síðustu tveimur leikjum Hauka?
„Já mjög. Þetta var hrikalega mikilvægt. Við erum að koma úr ljótum tveimur tapleikjum og síðan allt sem er búið að ganga á með ÍBV. Strákarnir eiga mikið hrós skilið fyrir hvernig þeir mættu í leikinn og tækluðu síðan mótlætið.“
Haukar eru frábærir í fyrri hálfleik og fara inn í hálfleikinn með 5 marka forskot. Eyjamenn vinna sig síðan inn í leikinn í seinni hálfleik og fá fjölmörg tækifæri til að jafna en tekst ekki. Hvað skar úr um þetta að lokum?
„Þetta var algjör leikur varnanna í seinni hálfleik og ekkert sérlega fallegur handbolti. Þjálfara hlýja sér samt oft við það þegar liðin fá færi og við vorum að fá fullt af færum á okkar slæma kafla en vorum að klikka á þeim sem kemur þeim inn í leikinn. Stundum höfum við brotnað í þeirri stöðu en núna stigum við upp og það er frábært.“
Ef þú berð þennan leik saman við leikina gegn Fram og svo HK. Af hverju vinna Haukar í kvöld en ekki Fram eða HK?
„Varnarlega vorum við töluvert betri í dag heldur en í síðustu tveimur leikjum. Liðið spilaði miklu betur saman og menn voru miklu sterkari andlega í kvöld en í fyrri leikjum. Síðan fær Skarphéðinn rautt spjald sem þýddi að við þurftum að rótera og Adam skar okkur úr snörunni á erfiðum tímapunkti og skorar örugglega tvö mikilvægustu mörk leiksins.“
Það hefur mikið verið rætt um viðureign þessara liða í 16 liða úrslitum bikarsins og niðurstöðuna. Margir bjuggust við mikilli hörku í kvöld. Smitaðist þessi stemning inn á völlinn?
„Þetta var allt í lagi spilað en menn voru ákveðnari og ætluðu sér miklu meira að vinna þetta líka út af því sem hefur gengið á.“
Næsti leikur er Evrópuleikur á móti Slóvensku liði. Hverjir eru möguleikar Hauka á móti þeim?
„Þetta eru stórir og sterkir leikmenn og spila allt öðruvísi spilarar en við erum vanir. En það er frábært að fá þessa evrópukeppni og eiga við eitthvað nýtt og annað en við erum vanir. Við ætlum okkur bara áfram,“ sagði Ásgeir í samtali við mbl.is.