Orri og Viktor dýrmætir í Meistaradeildinni

Orri Freyr Þorkelsson og Viktor Gísli Hallgrímsson léku báðir vel …
Orri Freyr Þorkelsson og Viktor Gísli Hallgrímsson léku báðir vel í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Landsliðsmennirnir Orri Freyr Þorkelsson og Viktor Gísli Hallgrímsson voru sínum liðum dýrmætir í kvöld þegar þau unnu afar mikilvæga sigra í Meistaradeildinni í handknattleik.

Viktor Gísli og félagar í pólska liðinu Wisla Plock gerðu góða ferð til Parísar og unnu þar óvæntan sigur á París SG, 31:28. Viktor varði 12 skot í marki Pólverjanna og var með 31 prósent markvörslu.

Með sigrinum komst Wisla upp í sjötta sæti A-riðils, en sex efstu liðin komast áfram í útsláttarkeppnina.

Sporting komst upp í annað sæti A-riðils með heimasigri gegn Pelister frá Norður-Makedóníu, 30:24. Þar var Orri Freyr í stóru hlutverki en hann skorðai sjö mörk fyrir portúgalska liðið úr sjö skotum.

Sporting er með 15 stig og endanlega öruggt með sæti í útsláttarkeppninni þegar þremur umferðum er ólokið.

Ljóst er að Vezsprém, Sporting, Füchse Berlín og París SG eru öll á leið þangað en Dinamo Búkarest, Wisla Plock, Pelister og Fredericia berjast um tvö síðustu sætin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert