„Mér leið vel og við vorum mjög vel stemmdir,“ sagði Hergeir Grímsson leikmaður Hauka í samtali við mbl.is eftir að liðið sigraði Ormoz frá Slóveníu, 31:23, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta á Ásvöllum í kvöld.
„Það voru læti og barátta í okkur og við spiluðum flotta vörn og fyrir aftan var Aron góður. Ég held öllum í liðinu hafi liðið rosalega vel. Það var góð ára yfir þessu. Mér fannst við vera með þá allan tímann en við vorum smá klaufar að missa þetta.
Við vorum 3-4 mörkum yfir en það vantaði eitthvað örlítið til að komast í 6-7 marka forystu. Það var góður karakter að enda þetta með átta marka sigri. Við fórum illa með færi og á kafla varði hann allt hjá okkur og vörnin fór að leka. Við vorum samt alltaf með yfirhöndina og gerðum vel í að koma til baka,“ sagði hann um leikinn.
Hergeir er að njóta þess mikið að spila í Evrópukeppni, þar sem Haukarnir eru í góðri stöðu til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum.
„Að vera í Evrópukeppni er ótrúlega gaman. Þetta brýtur upp tímabilið. Að spila á móti nýjum liðum og leikmönnum og fara út að spila. Þetta er stemning og rosalega skemmtilegt,“ sagði hann. Selfyssingurinn veit að einvígið er hins vegar ekki búið.
„Það er geggjað að fara út með átta marka forskot en annað eins hefur gerst í Evrópu. Þetta er alls ekki búið. Ég hef spilað á móti þeim áður og þeir eru með höll og læti. Þetta verður verkefni að fara út og við verðum að vera með hausinn rétt stilltan,“ sagði Hergeir.