Ógeðslega gaman þegar þetta endar inni

Skarphéðinn neglir að marki Ormoz í kvöld.
Skarphéðinn neglir að marki Ormoz í kvöld. mbl.is/Anton Brink

Skarphéðinn Ívar Einarsson átti stórleik fyrir Hauka og skoraði níu mörk er liðið sigraði Ormoz frá Slóveníu, 32:23, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars karla í handbolta á Ásvöllum í kvöld.

„Það tók svolítinn tíma að átta okkur á hvernig vörnin þeirra var því þeir voru villtir. Þeir voru mjög framarlega og þetta var öðruvísi handbolti en við erum vanir.

Þegar við létum boltann ganga vel í sókninni fengum við oftast mjög góð færi. Við hefðum getað unnið þetta stærra ef við hefðum nýtt dauðafærin betur,“ sagði Skarphéðinn í samtali við mbl.is eftir leik.

Eins og gefur að skilja var Skarphéðinn mjög sáttur með eigin frammistöðu í kvöld. „Það er geggjað að vera með línumenn sem blokka svona vel fyrir mig því þá fæ ég góð skotfæri. Það er svo ógeðslega gaman þegar þetta endar inni.“

Seinni leikurinn fer fram í Slóveníu eftir viku og er stórskyttan spennt.

„Mér líst mjög vel á seinni leikinn og ég hlakka til að fara út. Ég hef farið til Slóveníu áður og það var mjög gaman. Það er geggjuð tilbreyting frá deildinni og þetta er ógeðslega gaman,“ sagði Skarphéðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert