Gonzalo Pérez de Vargas, markvörður Barcelona og spænska landsliðsins í handknattleik, varð fyrir því óláni um helgina að slíta krossband í vinstra hné í leik með fyrrnefnda liðinu í spænsku deildinni á laugardag.
Þar með er tímabili hans lokið og sömuleiðis ferli hans hjá Barcelona, að minnsta kosti í bili, en Pérez de Vargas gengur til liðs við Kiel í Þýskalandi í sumar eftir að hafa leikið með Börsungum alla tíð, undanfarin 17 tímabil.
Hann er 34 ára gamall og hefur um árabil verið á meðal bestu markvarða heims en Pérez de Vargas hefur fimm sinnum unnið Meistaradeild Evrópu með Barcelona og tvívegis orðið Evrópumeistari með spænska landsliðinu.