Fram og Haukar áttust við í 17. umferð Íslandsmóts kvenna í handbolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Fram, 26:23, á heimavelli í Úlfarsárdal.
Eftir leikinn eru Framkonur í öðru sæti með 28 stig en Haukar eru í þriðja sætinu með 26 stig.
Framan af fyrri hálfleik var jafnræði á með liðunum en síðan tóku Framkonur völdin og náðu mest þriggja marka forskoti í hálfleiknum. Darija Zecevic var Haukakonum erfið í fyrri hálfleik en hún varði níu skot.
Haukakonur hleyptu Fram aldrei of langt fram úr sér og byrjuðu síðan að saxa á forskot heimaliðsins í lok fyrri hálfleiks. Tókst þeim að lokum að minnka muninn niður í eitt mark þegar 25 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik og voru hálfleikstölur 13:12 fyrir Fram.
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Valgerður Arnalds og Steinunn Björnsdóttir skoruðu allar þrjú mörk fyrir Fram í fyrri hálfleik. Eins og fyrr segir varði Darija Zecevic níu skot fyrir Fram.
Hjá Haukum skoraði Elín Klara Þorkelsdóttir fjögur mörk og varði Margrét Einarsdóttir sex skot, þar af eitt vítaskot.
Framkonur mættu mun ákveðnari en Haukakonur í seinni hálfleikinn og juku forskotið jafnt og þétt. Á fyrstu sex mínútum seinni hálfleiks skoruðu Framkonur fimm mörk gegn einu marki Hauka og var munurinn því fimm mörk í stöðunni 18:13 en þá tók Stefán Arnarson leikhlé fyrir Hauka.
Leikhlé Hauka gerði lítið því Haukakonur misstu boltann og fékk Elín Klara Þorkelsdóttir tveggja mínútna brottvísun fyrir að tefja leikinn. Framkonur juku í kjölfarið muninn í sex mörk í stöðunni 19:13 og útlitið var dökkt hjá Haukakonum.
Haukakonur náðu þó að bíta frá sér og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk og gátu minnkað hann niður í tvö mörk þegar staðan var 22:19 fyrir Fram en Darija Zecevic var Haukum gríðarlega erfið í leiknum og varði.
Haukum tókst að minnka muninn í tvö mörk eftir ítrekaðar tilraunir í stöðunni 22:20. Í kjölfarið komu tvö mörk í röð frá Framkonum sem juku muninn aftur í fjögur mörk og staðan var þá orðin 24:20.
Haukakonur reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn og skapa spennu á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki og unnu Framkonur að lokum mikilvægan sigur í baráttunni um annað sætið í deildinni.
Þær Steinunn Björnsdóttir, Valgerður Arnalds og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoruðu allar fimm mörk hver fyrir Fram. Darija Zecevic varði 16 skot.