Íslendingalið Bergischer er í góðri stöðu á toppi þýsku B-deildarinnar í handknattleik karla eftir enn einn sigurinn í kvöld. Að þessu sinni heimsótti Bergischer lið Konstanz og vann örugglega, 35:28.
Bergischer er með 38 stig í efsta sæti, sex stigum fyrir ofan Minden í öðru sæti sem á þó leik til góða.
Tjörvi Týr Gíslason og Arnór Viðarsson skoruðu eitt mark hvort fyrir Bergischer, sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar.
Balingen er í þriðja sæti með 31 stig eftir 29:28-sigur á Lübeck-Schwartau í kvöld.
Daníel Þór Ingason komst ekki á blað hjá Balingen að þessu sinni en gaf eina stoðsendingu.
Elmar Erlingsson átti stórleik fyrir Nordhorn-Lingen sem tapaði fyrir Hamm-Westfalen, 37:34, á útivelli.
Elmar skoraði fjögur mörk og gaf auk þess fjórar stoðsendingar í liði Nordhorn.
Nordhorn er í sjötta sæti með 25 stig.