Frábær lokasprettur skilaði Selfyssingum öruggum sigri á ÍR í fyrsta leik sex liða úrslita Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi þar sem heimakonur sigruðu 31:27.
Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki tryggir sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins og er óhætt að segja að Selfyssingar hafi verið meira sannfærandi í kvöld.
Selfoss hafði frumkvæðið framan af í fyrri hálfleik en ÍR jafnaði 9:9 þegar átján mínútur voru liðnar og gestirnir komust yfir í kjölfarið. Selfyssingar voru hins vegar á miklu flugi undir lok fyrri hálfleiks og náðu að snúa leiknum aftur sér í vil, 16:14 í hálfleik.
ÍR jafnaði 17:17 í upphafi seinni hálfleiks og allt stefndi í spennuleik. En Selfyssingar voru alls ekki á sama máli. Þær juku forskotið aftur og héldu ÍR í heljargreipum allan seinni hálfleikinn. Gestirnir fóru að hika á meðan Selfoss gaf í og síðasta korterið var augljóst í hvað stefndi.
Einhverjir Selfyssingar höfðu áhyggjur af fjarveru Perlu Ruthar Albertsdóttur í liði Selfoss en hún er ófrísk. Það er þá hlutverk annarra að stíga upp á meðan og það gerði til dæmis Sara Dröfn Richardsdóttir sem átti góðan leik í horninu. Maður leiksins var hins vegar Harpa Valey Gylfadóttir sem var gjörsamlega frábær í kvöld, sýndi mikinn drifkraft og tryggði flæði í sóknarleik Selfyssinga. Þá er ótalið framlag Huldu Dísar Þrastardóttur sem er einn mikilvægasti leikmaður Selfoss bæði í vörn og sókn. Hún var góð í kvöld.
ÍR-ingar fóru flatt á töpuðu boltunum í kvöld. Þær voru nokkrum sinnum við það að koma sér almennilega inn í leikinn en asinn var of mikill og Selfyssingar refsuðu þeim grimmilega á móti. Þær eru með sterka varnarmenn og útsjónarsama sóknarmenn en liðið þarf að þjappa sér betur saman fyrir næsta leik, annars er það bara sumarfrí. Sara Dögg Hjaltadóttir og Katrín Tinna Jensdóttir voru atkvæðamestar í sókninni og Vaka Líf Kristinsdóttir var grjóthörð í vörninni.
Hulda Dís skoraði 7/6 mörk fyrir Selfoss og Harpa Valey skoraði sömuleiðis 7. Sara Dröfn nýtti sín færi vel og skoraði 6 mörk. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti góðan leik í marki Selfoss og varði 14/1 skot.
Hjá ÍR-ingum skoraði Katrín Tinna 6 mörk og Sara Dögg 6/1. Ingunn María Brynjarsdóttir varði 9 skot í markinu.
Mbl.is var á Selfossi og fylgdist með gangi mála í beinni textalýsingu sem sjá má hér fyrir neðan.