Færeyingar tryggðu sér í kvöld sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik með því að sigra Kósovó á útivelli í Pristina, 25:23.
Færeyingar eru efstir í 6. riðli undankeppninnar með 7 stig, Hollendingar eru með 6, Úkraínumenn 4 og Kósovó 3 stig þegar ein umferð er eftir.
Færeyska liðið lenti undir seint í leiknum, 23:22, en skoraði þrjú síðustu mörkin og tryggði sér sigurinn.
Hollendingar unnu Úkraínu, 35:27, á útivelli í kvöld og eru líka búnir að tryggja sér EM-sæti.
Hákun West av Teigum átti stórleik með Færeyingum í kvöld og skoraði 11 mörk.