Georgía er komin á Evrópumót karla í handknattleik eftir sigur á Grikklandi, 29:26, í C-riðli undankeppninnar í Georgíu í dag.
Georgía er með sex stig í öðru sæti riðilsins þegar ein umferð er eftir en Grikkland og Bosnía eru bæði með tvö og geta því ekki náð georgíska liðinu.
Ísland tekur á móti Georgíu í Laugardalshöllinni á sunnudaginn kemur en Grikkland fær Bosníu í heimsókn samdægurs.
Þetta er í annað sinn sem Georgía kemst á EM en þjóðin var einnig með á síðasta Evrópumóti.
Grikkir voru yfir með tveimur mörkum í hálfleik, 16:14, en í seinni hálfleik voru Georgíumenn sterkari, unnu hálfleikinn með fimm mörkum og leikinn með þremur.
Giorgi Arvelodi Dikhaminjia skoraði sjö mörk fyrir Georgíu en Dimitrios Tziras skoraði sjö mörk fyrir Grikkland.