Leikmaður Hannesar fær tveggja ára bann

Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard.
Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard. Ljósmynd/handball-westwien.at

Króatíski handknattleiksmaðurinn Ivan Horvat, lærisveinn Hannesar Jóns Jónssonar hjá Alpla Hard í Austurríki, hefur verið úrskurðaður í tveggja ára bann af austurríska handknattleikssambandinu. 

Horvat má ekki spila fyrr en sumarið 2027 en hann fékk blátt og rautt spjald í leik Alpla Hard gegn Bregenz í átta liða úrslitum Austurríkismótsins. Alpla Hard sigraði báða leiki naumlega og er komið í undanúrslit. 

Horvat braut hrottalega á Markusi Mahr, leikstjórnanda Bregenz, á 42. mínútu leiksins sem gerði það að verkum að Mahr þurfti að yfirgefa völlinn blóðugur og var fluttur á sjúkrahús. 

Nef Mahrs var margbrotið og þurfti hann að gangast undir aðgerð. 

Dómstóll austurríska handknattleikssambandsins leit á brotið sem gróft og óíþróttamannslegt og setti Horvat í tveggja ára bann en hann hefur gerst sekur um fantaskap áður. 

Þó er þessi lengd á banni óvenjuleg í handboltaheiminum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert