Þriðji Gróttumaðurinn sem stekkur frá borði

Elvar Otri Hjálmarsson er genginn til liðs við ÍR.
Elvar Otri Hjálmarsson er genginn til liðs við ÍR. Ljósmynd/ÍR

ÍR hefur samið við handboltamanninn Elvar Otra Hjálmarsson um að leika með liðinu næstu tvö tímabil. Elvar Otri kemur frá Gróttu sem féll niður í 1. deild á nýafstöðnu tímabili.

Hann er þar með þriðji leikmaðurinn sem yfirgefur Gróttu í dag.

Áður höfðu Haukar tilkynnt um komu Jóns Ómars Gíslasonar frá félaginu og Afturelding um að Ágúst Ingi Óskarsson væri kominn í Mosfellsbæinn frá Seltjarnarnesi.

Hinn 24 ára gamli Elvar Otri ólst upp hjá Fjölni og er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað allar stöður fyrir utan.

„Við ÍR-ingar erum afar ánægðir með komu Elvars og hlökkum til að sjá hann láta til sín taka í Skógarselinu. Fleiri jákvæðra fregna er að vænta úr okkar herbúðum á næstu dögum!“ sagði meðal annars í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍR.

ÍR hélt sæti sínu í úrvalsdeildinni og leikur því áfram á meðal þeirra bestu á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert