Bræðurnir Viktor og Theodór Sigurðssynir munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik þegar lið þeirra Valur og Fram eigast við í úrslitaeinvígi.
Viktor, sem er 23 ára leikstjórnandi og vinstri skytta, leikur með Val, og Theodór, sem er 21 árs vinstri hornamaður, leikur með Fram.
Báðir eru þeir uppaldir hjá ÍR í Breiðholti. Þess má geta að Rúnar Kárason, hægri skytta Fram, er náfrændi þeirra bræðra en þeir þrír eru systkinabörn.
Fyrsti leikur Vals og Fram í úrslitaeinvíginu fer fram á Hlíðarenda í kvöld þar sem vænta má þess að allir þrír verði í eldlínunni.