Fram er komið í 1:0 gegn Val í úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmóti karla í handbolta eftir útisigur í fyrsta leik, 37:33, á Hlíðarenda í kvöld. Annar leikurinn fer fram í Úlfarsárdal næstkomandi mánudagskvöld.
Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks í gríðarlega hröðum og skemmtilegum handboltaleik. Var staðan t.a.m. orðin 5:5 eftir aðeins sex mínútur.
Staðan var jöfn næstu mínútur en Valur komst í 15:13 á 23. mínútu og var skrefinu á undan það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Fram náði svo þriggja marka forskoti í fyrsta skipti í stöðunni 20:17, sem voru einmitt hálfleikstölur.
Fram komst fjórum mörkum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 25:21. Liðin skiptust á mörkum næstu mínútur og var staðan 29:25 þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður.
Fram komst fimm mörkum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 30:25 og svo sjö mörkum yfir í kjölfarið, 32:25, þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.
Valur skoraði næstu þrjú mörk og minnkaði muninn í 32:28 og svo í tvö mörk, 33:31, þegar sex mínútur voru eftir. Munurinn var svo aðeins eitt mark þegar fjórar mínútur voru eftir, 33:32.
Framarar brotnuðu hins vegar ekki, skoruðu þess heldur næstu tvö mörk og komust í 35:32. Tókst Val ekki að jafna eftir það og Fram tók forystuna í úrslitaeinvíginu.